Innlent

Nýjum banka fagnað með veisluhöldum

kaupþing í Lúxemborg  Nýr banki hefur tekið yfir starfsemi kaupþings í Lúxemborg og mun bera nafnið Banque Havilland. Nýi bankinn er í eigu Rowland-fjölskyldunnar sem á meðal annars Blackfish Group.
kaupþing í Lúxemborg Nýr banki hefur tekið yfir starfsemi kaupþings í Lúxemborg og mun bera nafnið Banque Havilland. Nýi bankinn er í eigu Rowland-fjölskyldunnar sem á meðal annars Blackfish Group.

Nýr banki hefur tekið við Kaupþingi í Lúxemborg. Bankinn mun bera nafnið Banque Havilland. Bankinn er í eigu Rowland-fjölskyldunnar sem á meðal annars fjármálafyrirtækið Blackfish Group. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá hinum nýstofnaða banka.

Magnús Guðmundsson kemur til með að vera framkvæmdastjóri hins nýja banka en hann var einnig við stjórnvölinn fyrir sölu hans. Hann segir að bankinn fái 320 milljóna evra lán frá yfirvöldum í Belgíu og Lúxemborg til að greiða innstæður. Auk þess sem bankinn fær lán frá innstæðutryggingasjóði í Lúxemborg að fjárhæð 300 milljónir evra. „Þessi lán hefðu aldrei fengist ef yfirvöld í Belgíu og Lúxemborg hefðu ekki trú á þeim aðilum sem kaupa bankann,“ segir Magnús.

„Innstæðueigendur Kaupþings í Lúxemborg fá innstæður sínar greiddar að fullu en aðrir kröfuhafar fá 82,5 prósent af upphaflegri kröfu.“ Meðal innstæðueiganda eru Íslendingar sem fá greiddar innstæður að fullu líkt og aðrir kröfuhafar.

Magnús Guðmundsson

Magnús segir að Rowland-fjölskyldan leggi bankanum til 50 milljónir evra vegna endur­skipulagningar hans. Þrír fjölskyldumeðlimir hafa þegar hafið störf hjá bankanum, þar á meðal mun Jonathan Rowland setjast í stjórn félagsins. Stjórnarformaður hins nýja félags er Martyn Konig sem hefur starfað fyrir fjölskylduna í ellefu ár. Auk þess mun Gary Hoffman bankastjóri Northern Rock taka sæti í stjórn bankans. Hoffman var skipaður í það embætti af breska ríkinu við fall bankans á síðasta ári.

Magnús segir að það farsæla niðurstöðu að Rowland fjölskyldan hafi keypt bankann. Endurskipulagningin hafi tekið níu mánuði og einn dag og þar hafi reynt á allt sem hugsanlega er hægt að reyna á í endurskipulagningu félags, þar sem öðruvísi var haldið á málum í Lúxemborg en á Íslandi. Hann bendir á að neyðarlög voru sett á Íslandi en í Lúxemborg þurfti að vinna með öllum kröfuhöfum til að finna lausn sem þeir gætu sæst á í stað setningar neyðarlaga. Mikil ánægja ríkir í Belgíu með þessa niðurstöðu mála og var forsvarsmönnum hins nýja banka, Magnúsi auk forsætisráðherra Belgíu boðið til veislu þar sem niðurstöðu málsins var fagnað.

Í tilkynningu frá bankanum kemur fram að bankinn komi til með að einbeita sér að auðugum viðskiptavinum frá Evrópu, Mið-Austurlöndum og Asíu. Bankinn mun áfram veita hefðbundna bankaþjónustu til núverandi og nýrra viðskiptavina auk þjónustu á sviði eignastýringar og einkabankaþjónustu. Rowland-fjölskyldan hefur verið viðloðandi fjárfestingar og fjármálaumsýslu í um 45 ár. bta@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×