Erlent

Biskup gerður landrækur

Óli Tynes skrifar
Richard Williamson.
Richard Williamson.
Kaþólski biskupinn sem neitaði að helförin hefði átt sér stað hefur verið gerður landrækur frá Argentínu.

Það olli miklu uppnámi þegar breski biskupinn Richard Williamson sagði í viðtali við sænska sjónvarpsstöð að hans eigin rannsóknir hefðu sannfært hann um að Þjóðverjar hefðu ekki notað neina gasklefa til þess að úrýma gyðingum og að tölur látinna hefðu verið stórlega ýktar.

Þetta vakti því meiri athygli að Benedikt sextándi páfi hafði aflétt bannfæringu af biskupinum fyrir aðrar sakir þó. Í Páfagarði var því haldið fram að páfa hefði ekki verið kunnugt um skoðanir Williamsons og hefði skipað honum að biðjast afsökunar á ummælum sínum.

Williamson kvaðst ekki geta gert það nema skoða málið á nýjan leik og þá aðeins ef hann kæmist ekki að sömu niðurstöðu. Í samtali við þýska tímaritið Spiegel sagði hann að hann hefði pantað sér bók um helförina sem hann ætlaði að lesa.

Biskupinn hefur búið og starfað í Argentínu um langt skeið. Fyrr í þessum mánuði brugðust yfirvöld þar í landi við með því að setja hann af sem skólastjóra prestaskóla.

Í dag var tilkynnt að hann hefði verið gerður landrækur og hefði tíu daga frest til þess að yfirgefa landið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×