Innlent

Verkefnaskortur blasir við fjölveiðiskipunum

Verkefnaskortur blasir við fjölveiðiskipafotanum á næsta ári vegna skertra kvóta úr Norsk-íslenska síldarstofninum, kolmunnastofninum, loðnuleysis og sýkingingar í íslenska síldarstofninum.

Um það bil 25 skip teljast til uppsjávarflotans, sem einbeitir sér að veiðum úr uppsjávarstofnum, en togaraflotinn veiðir botnlægar tegundir eins og þorsk og ýsu. Verkefnaskorturinn er þegar farinn að gera vart við sig samanber það að floti HB granda hefur veitt rétt liðlega hundrað þúsund tonn af uppsjávarfiski i ár, samanborið við rösklega 260 þúsund tonn fyrir aðeins fjórum árum.

Eins og við höfum greint frá, hefur engin loðnukvóti verið gefinn út, þar sem óverulegt magn hefur fundist á miðunum. Kvótinn úr Norsk- íslensku síldinni verður tíu prósentum minni í ár en í fyrra, kolmunnakvótinn er aðeins 87 þúsund tonn, en árið 2007 voru 300 þúsund tonn veidd af honum. Þá ríkir mikil óvissa um veiðar úr íslenska síldarstofninum vegna mikillar sýkingar.

Ljósið í myrkrinu er að veiðiheimildir á makríl, þessa nýjasta bjargvættar á Íslandsmiðum, hafa heldur verið auknar, og svo dreymir sjómenn og útvegsmenn um óvænta gulldepluveiði, en þar er ekki á vísann að róa.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×