Erlent

Maður segist vera barn sem hvarf árið 1955

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
John Robert Barnes.
John Robert Barnes. MYND/Daily News

Bandaríska alríkislögreglan FBI hefur sýnt fram á það með ítarlegum rannsóknum á erfðaefni manns nokkurs að hann er ekki ungbarn sem hvarf fyrir utan verslun á Long Island í New York árið 1955.

John Robert Barnes, sem búsettur er í Kalkaska í Michigan, hélt á fund lögreglu í New York í mars á þessu ári og lýsti því yfir að hann væri enginn annar en Steven Damman sem hvarf á sínum tíma, þá tveggja ára gamall. Barnes hafði þá haft uppi á systur horfna drengsins og í sameiningu létu þau gera rannsókn á erfðaefni sínu sem sýndi að einhverjar líkur væru á að þau væru systkini.

Alríkislögreglan dró þá fram sinn kennslabúnað og rannsakaði málið með allra nýjustu tækni. Sú rannsókn sýndi hins vegar svo ekki varð um villst að engar líkur væru á að Barnes og systirin gætu átt sömu móður og þar við situr. John Robert Barnes er sem sagt ekki Steven Damman.

Barnið hvarf á mjög leyndardómsfullan hátt á sínum tíma. Móðir þess brá sér inn í búð og skildi drenginn eftir í barnavagni fyrir utan ásamt systur hans. Þegar móðirin kom út aftur voru bæði börnin horfin ásamt barnavagninum. Stúlkan og barnavagninn fundust nokkrum húsaröðum í burtu en drengurinn kom aldrei fram.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×