Erlent

Svikahrappar maka krók sinn í kreppunni

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Oft er flagð undir fögru skinni. Sölumenn djöfulsins fitna í kreppunni sem púkinn á fjósbitanum.
Oft er flagð undir fögru skinni. Sölumenn djöfulsins fitna í kreppunni sem púkinn á fjósbitanum.

„Upp komast svik um síðir," sagði gamla konan í þjóðsögunni þegar blóðdroparnir þrír drupu á hana í kirkjudyrunum. Yfirleitt er það þannig að svikin komast upp um síðir en stundum er það hreinlega of seint. Það segja að minnsta kosti bandarísku neytendasamtökin og þau ljúga nú varla.

Svikahrappar hvers konar vaða nú uppi með listir sínar í Bandaríkjunum, og auðvitað víðar, og veiða fórnarlömb efnahagshrunsins fimlega í þéttofin net sín á meðan þeir fitna sem púkinn á fjósbitanum. Það hlýtur að segja sitt þegar neytandasamtökunum berast yfir 15.000 tilkynningar um fjársvik á einu ári en þannig var það í fyrra.

Og hvað eru þessir óprúttnu aðilar að gera? Tölvupóst- og netsvindl er að verða það algengasta. Fólk er leitt á glapstigu með alls kyns gylliboðum, upplognum lottóvinningum, ódýrum varningi sem aldrei kemur og eiginlega bara hverju sem er. „Við gerum þig vellauðugan, þú þarft reyndar að senda okkur 10.000 dollara fyrst og þá sendum við þér milljarð." Hver fellur fyrir þessu? Fjöldi fólks um allan heim, ótrúlegt en satt. Hér á gamla góða reglan við sem aldrei fyrr: Ef það er of gott til að vera satt, þá er það einmitt ekki satt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×