Erlent

Páfi biður fyrir Íslendingum

Benedikt XVI páfi
Benedikt XVI páfi
Benedikt XVI. páfi óskar íslenskum stjórnmálamönnum „visku og framsýni“ við að ráða fram úr fjármálakreppunni. Páfi lét þessi orð falla er Elín Flygenring, sem nýlega tók við sem fastafulltrúi Íslands við Evrópuráðið í Strassborg, afhenti trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands gagnvart Páfagarði á fimmtudag.

Páfi sagðist þess fullviss að íslenska þjóðin, sem væri þekkt fyrir seiglu sína og hugrekki, muni standa af sér þessa erfiðleikatíma og öðlist efnahagslegan stöðugleika á ný. Til þess sé þörf á skynsömum og ábyrgum ákvörðunum, sem byggi á siðrænum gildum.

Benedikt XVI. lagði áherslu á, að Páfagarður fylgdist áhyggjufullur með þeim þrautum sem fólk og heilu þjóðríkin gengju nú í gegnum af völdum alþjóðlegu fjármálakreppunnar. Hann fylgdist vel með þeim tillögum sem fram kæmu um leiðir til að koma á stöðugleika á ný í fjármálakerfi bæði einstakra landa og alþjóðlega.

„Ég bið fyrir því að þeir sem bera ábyrgð á pólitískum og efnahagslegum ákvörðunum láti visku, framsýni og almannaheill ráða för,“ sagði páfi. - aa



Fleiri fréttir

Sjá meira


×