Erlent

Lag ýfir kynþáttaáhyggjur

Kynþáttur hans er ekki öllum Bandaríkjamönnum að skapi og nú hefur lag sem fjallar um hann vakið deilur í Repúblikanaflokknum.
Kynþáttur hans er ekki öllum Bandaríkjamönnum að skapi og nú hefur lag sem fjallar um hann vakið deilur í Repúblikanaflokknum. fréttablaðið/ap

Geisladiskur, sem Chip Saltsman, repúblikani frá Tennessee, sendi félögum sínum í landsnefnd Repúblikanaflokksins um jólin ætlar að draga dilk á eftir sér. Á disknum var að finna lag grínistans Paul Shanklin, sem þykir heldur íhaldssamur, Barack, the Magic Negro. Í laginu, sem sungið er við gamla hippaslagarann Puff, the Magic Dragon, er kynþáttauppruni Obama dreginn í efa.

Saltsman sækist nú eftir útnefningu sem formaður landsnefndarinnar. Núverandi formaður, Robert M. Duncan, hefur sagst vera yfir sig hneykslaður á sendingunni. Saltsman, sem áður vann fyrir Mike Huckabee sem sóttist eftir útnefningu flokksins til forsetaframboðs, hefur hins vegar varið lagið og sagt það vera eina af fjölmörgum græskulausum pólitískum háðsádeilum.

„Ég trúi því í einlægni að allir Bandaríkjamenn séu velkomnir í flokkinn okkar og leiðin til endurreisnar Repúblikanaflokksins hefjist með einingu, ekki sundrungu. En ég veit að leiðtogar flokksins eiga að standa gegn tvöföldu siðgæði fjölmiðla og neita að fullnægja þörf þeirra fyrir hneyksli,“ sagði Saltsman.

Talsmaður Obama, sem tekur við embætti í janúar, neitaði að tjá sig um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×