Innlent

Áhyggjuefni að ríkissjóður komi nær tómhentur út úr góðæri

Þorvaldur Gylfason, prófessor í hagfræði, segir það áhyggjuefni að ríkissjóður komi nær tómhentur út úr góðæri síðustu ára þar sem hann hefði átt að nota tímann í að byggja upp gjaldaeyrisforðann.

Þorvaldur segir ljóst að ríkisstjórnin hafi farið alltof seint af stað í að byggja upp gjaldeyrisforða Íslands. „Það er mikið áhyggjuefni að ríkissjóður skuli koma svo að segja tómhentur út úr gríðarlegu góðæri undangenginna ára og sjá þá eina leið færa að taka enn eitt erlent lán til þess að byggja upp gjaldseyrisforðann sem auðvitað hefði átt að nota góðærið til þess að byggja upp," segir hann.

Þorvaldur segir hann og fleiri hafa varað við því allt frá árinu 1999 að gjaldeyrisforðinn væri alltof lítill. „Því kalli var ekki sinnt, ekki fyrr en fyrir 18 mánuðum að þá var gjaldeyrisforðinn tvöfaldaður og það var ekki næstum því nóg eins og sést á vandræðunum sem hann er í núna," segir Þorvaldur enn fremur.

Hann bendir á að gjaldeyrisforðinn þyrfti að vera að réttu lagi alltaf yfir sammtímaskuldum þjóðarbúsins erlendis og þær séu nú tvöföld landsframleiðsla. Um gríðarlega fjárhæð sé að ræða. „Auðvitað hefði aldrei átt að koma til þess að skammtímaskuldir þjóðarbúsins séu orðnar tvöföld landsframleiðsla," segi Þorvaldur. Hann segir andvaraleysið í hagstjórninni, bæði í peningamálum og ríkisfjármálum, hins vegar hafa verið svo makaklaust í góðærinu að það taki út yfir allan þjófabálk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×