Enski boltinn

Barton veit að hann er á síðasta séns

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Joey Barton í leik með Newcastle.
Joey Barton í leik með Newcastle. Nordic Photos / Getty Images

Joey Barton er gjaldgengur í lið Newcastle sem mætir Sunderland um helgina en hann spilaði með varaliði félagsins nú í vikunni.

Barton sat í fangelsi í 74 daga fyrr á þessu ári vegna líkamsárásar og þá var hann dæmdur í sex leikja bann fyrir að ráðast á fyrrum liðsfélaga sinn hjá Manchester City, Ousmani Dabo, í fyrra.

Hann segist gera sér fulla grein fyrir því að hann eigi ekki mörg tækifæri eftir til að koma sér á rétta braut í knattspyrnunni.

„Ég hef vonandi lært af mínum mistökum. Ég er á mínum síðasta séns og er þakklátur fyrir að hafa fengið eitt tækifærið enn," sagði Barton sem viðurkenndi að vandamál hans tengjast áfengisdrykkju. Hann hefur hins vegar ekki drukkið áfengi síðustu tíu mánuðina.

„Ég er að reyna að koma lífi mínu og fótboltaferli á rétt spor. Síðustu átján mánuðir hafa verið algjört helvíti. Ég byrjaði aftur að spila en stuðningsmennirnir bauluðu á mig og ég var ekki að spila vel."

„En ég náði að halda áfram og fór að standa mig betur. Aðalmálið fyrir mig er að halda mér allsgáðum og mér líst vel á framtíðina. Ég myndi vissulega vilja breyta ýmsu í minni fortíð en það er einfaldlega ekki hægt."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×