Íslenski boltinn

Garðar Örn með beinhimnubólgu - þarf jafnvel í uppskurð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Garðar Örn Hinriksson knattspyrnudómari.
Garðar Örn Hinriksson knattspyrnudómari. Mynd/Daníel

Garðar Örn Hinriksson knattspyrnudómari mun ekki dæma meira á tímabilinu þar sem hann er með beinhimnubólgu. Hann þarf jafnvel að fara í uppskurð á báðum fótum vegna þessa.

Garðar dæmdi síðast leik FH og Grindavíkur í 16. umferð sem fór fram þann 17. ágúst. „Ég fór utan í tveggja vikna frí eftir þann leik og hef ekkert getað dæmt síðan."

„Þetta er gamalt vandamál. Ég hef verið með beinhimnubólgu í nokkur ár og þarf jafnvel að fara í uppskurð á báðum sköflungum. Það kemur í ljós í næstu viku þegar ég fer og hitti lækninn minn," sagði Garðar í samtali við Vísi.

„En ég ætti að vera klár fyrir næsta sumar og vonandi fyrir deildarbikarinn sem hefst í janúar eða febrúar," bætti hann við.

Garðar er einnig FIFA-dómari og átti að fara til Bosníu í næsta mánuði til að dæma keppni hjá U-19 landsliðum.

„Auðvitað er mjög svekkjandi að missa af því. Ég hefði gjarnan vilja koma til Bosníu. En svona er þetta bara, því miður."

Spurður um sumarið segir Garðar að vissulega hafi það verið mjög litafagurt en Garðar gaf óvenju mörg rauð spjöld í sumar.

„Maður hefur verið svolítið á milli tannanna í sumar vegna spjaldanna. En þegar ég lít yfir sumarið get ég ekki betur séð að ég hafi gert rétt þó að allir séu mér ekki sammála. Mér leið vel í sumar þó að það hafi kannski ekki verið auðvelt að teygja sig í rauða spjaldið undir það síðasta."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×