Innlent

Nagladekk kosta borgina 300 milljónir á ári

Kostnaður Reykjavíkurborgar vegna notkunar nagladekkja er sennilega um 300 milljónir króna á ári. Ef engin bifreið á götum borgarinnar væri búin nagladekkjum gæti Reykjavíkurborg sennilega sparað um það bil 300 milljónir króna árlega.

Umhverfis-og samgöngusvið Reykjavíkurborgar gerir ráð fyrir að árlega þurfi um það bil 10.000 tonn meira af malbiki en ella vegna mikillar nagladekkjanotkunar.

,,Nagladekk spæna upp malbikið á götum borgarinnar hundrað sinnum hraðar en naglalaus dekk og eru þau ein helsta uppspretta svifryks í Reykjavík," segir í tilkynningu umhverfis- og samöngusviðs. 44% bifreiða voru á nöglum í apríl 2008.

Svifryksmengunar í Reykjavík gætir mest að vetri til þegar veður er þurrt og kalt, lítill raki er í andrúmslofti og umferð mikil. Svifryk á götum borgarinnar er bæði vegna slits á malbiki og vegna uppþyrlunar á aðfluttu ryki eins og jarðvegsryki.

Umhverfis-og samgöngusvið segir að notkun góðra vetrardekkja í stað nagladekkja myndi bæði draga úr svifryksmengun og kostnaði vegna viðhalds gatna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×