Innlent

Einar Skúlason ráðinn skrifstofustjóri hjá framsókn

Einar Skúlason.
Einar Skúlason.
Einar Skúlason hefur verið ráðinn skrifstofustjóri þingflokks framsóknarmanna. Einar tekur við starfinu af Helgu Sigrúnu Harðardóttur sem nýverið tók sæti á Alþingi við brotthvarf Bjarna Harðarsonar. Einar hefur undanfarin ár starfað sem framkvæmdastjóri Alþjóðahúss. Í samtali við Vísi segir hann að sér lítist vel á nýja starfið.

Einar er með B.A.-gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og MBA-gráðu frá Háskólanum í Edinborg. Einar hefur áður tekið þátt í starfi Framsóknarflokksins og gegnt trúnaðarstörfum fyrir flokkinn. Hann sat m.a. í stjórn Sambands ungra framsóknarmanna frá 1996 til 2002, þar af sem formaður 1999-2002. Einar sat einnig í Stúdentaráði HÍ fyrir Röskvu - samtök félagshyggjufólks, árin 1995-1997 og gegndi starfi framkvæmdastjóra þess árin 1996-1997," segir í tilkynningu frá Framsóknarflokknum.

Þá kemur fram að Einar muni hefja störf hjá þingflokknum um næstu áramót. „Mér líst bara vel á þetta og er spenntur fyrir því að fara að taka á málum,“ segir Einar í samtali við Vísi. Hann segir þetta hluta af ákveðnum kynslóðaskiptum í flokknum. „Ég er líka búinn að vera í rúm fimm ár í Alþjóðahúsinu og það er ekki mjög gott að vera á sama staðnum of lengi.“

„Um leið og Einar er boðinn velkominn til starfa eru Helgu Sigrúnu þökkuð góð og óeigingjörn störf á liðnum árum og henni óskað velfarnaðar í nýju starfi," segir að lokum í tilkynningu flokksins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×