Innlent

Vill tóbakið úr fríhöfnunum

Ásta Möller, þingmaður Sjálfstæðisflokks og formaður heilbrigðisnefndar, vill að sölu tóbaks í fríhöfnum verði hætt. "Við vinnum gegn heilbrigðismarkmiðum með því að selja tóbak á lægra verði í fríhöfnum heldur en í verslunum," segir Ásta.

Hún hefur lagt fram tvær fyrirspurnir um málið til fjármálaráðherra. Í annarri vill hún svör við hversu mikið af tóbaki er flutt tollfrjálst til landsins, samanburð á verði í fríhöfnum og í almennum verslunum og hvaða rök liggi að baki tóbakssölu í fríhafnarverslunum. Í hinni spyr hún einfaldlega hvort fjármálaráðherra telji koma til greina að hætta sölu tóbaks í fríhafnarverslunum.

Afstaða hennar sjálfrar er ljós. "Tóbaksnotkun hefur gífurleg áhrif á heilsu og sala þess vinnur á móti heilbrigðismarkmiðum. Ein leið til að minnka reykingar er að selja tóbakið háu verði og það skýtur því skökku við að ríkið selji það á lægra verði í fríhöfninni."

Ásta bendir á nýlega samþykkt Læknafélagsins um að tóbak verði aðeins selt gegn lyfsseðli eftir tíu ár og segir að jákvæð áhrif reykingabanns á veitingastöðum hafi þegar komið fram í færri tilfellum hjartaáfalla.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×