Innlent

Ísland ekki í öryggisráðið

Ísland fær ekki sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna árin 2009 til 2010. Þetta kom í ljós við atkvæðagreiðslu á allsherjarþinginu fyrir stundu.

Ísland atti kappi við Austurríki og Tyrkland um tvö laus sæti Vestur-Evrópu og þurfti 128 atkvæði til þess að komast að. Ísland fékk hins vegar 87 atkvæði, Tyrkland 155 og Austurríki 133.

Þrjú önnur ríki fengu sæti í öryggisráðinu við kosninguna í dag. Fyrir Afríku og Asíu hlutu Úganda og Japan sæti með 181 og 158 atkvæði. Íran hlaut hins vegar 32 atkvæði og Madagaskar tvö.

Í hópi Suður-Ameríkuríkja og ríkja Karíbahafsins var eitt sæti í öryggisráðinu í boði. Þar greiddu 186 ríki atkvæði og hlaut Mexíkó 185 þeirra en Brasilía eitt.

Það verða því Austurríki, Tyrkland, Japan, Úganda og Mexíkó sem eiga fulltrúa í ráðinu næstu tvö ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×