Innlent

Kjör Obama opnar ný tækifæri fyrir Íslendinga

MYND/AP
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra segir kjör Baracks Obama sem forseta Bandaríkjanna hafa táknræna þýðingu og breyta ásýnd Bandaríkjanna bæði innanlands og utan. „Það felur í sér nýtt tækifæri fyrir Bandaríkin til að verða forysturíki á sviði lýðræðis og friðar í heiminum," segir utanríkisráðherra í yfirlýsingu vegna bandarísku forsetakosninganna.

„Það er örugglega einsdæmi að jafn margar einlægar óskir eins víða að úr heiminum fylgi nýkjörnum forseta. Heimurinn treystir því að hann beiti sér fyrir aðgerðum á heimsvísu sem geta linað efnahagskreppuna sem nú skekur heiminn og hann leggi sig fram um að lægja öldur átaka, í stað þess að reisa þær, ekki síst í Mið-Austurlöndum.

Fyrir okkur Íslendinga opnar kjör Obama nýja möguleika. Frá brotthvarfi bandaríkjahers frá Íslandi hefur það verið verkefni okkar að þróa ný og mikilvæg tengsl á sviði menningar og viðskipta við nágranna okkar í vestri og aðkoma nýs forseta getur haft þar mikla þýðingu," segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×