Innlent

Guðni: Stefnuræða Geirs var um ekki neitt

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins.
Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins.

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra fyrr í kvöld að þjóðin sé slegin fyrir stöðu máli í landinu. Hann sagði hlutverk stjórnmálamanna vera að róa almenning en ræða Geirs hafi aftur á móti ekki verið um neitt.

,,Heimili og fyrirtæki loga stafanna á milli," sagði Guðni. Fyrir ári sagðist hann hafa varað við ástandinu og rætt um nauðsyn á þjóðstjórn. Ríkisstjórnin hafi ekki gert mikið með þau varnaðarorð.

,,Hver er staðan nú? Mesta verðbólga í áratugi og gengi íslensku krónunnar er kolfallið," sagði Guðni og bætti við að stýrivextir Seðlabankans væru þeir mestu á byggðu bóli.

Guðni sagði að allir væru að tapa á aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar og staðan væri þyngri en tárum taki. ,,Við verðum að bjarga því sem bjargað verður."

Guðni sagði mikilvægt að endurskoða peningastefnuna um verðbólgumarkmiðin og flotgengið sem hann sagði að væri gjaldþrota í höndum ríkisstjórnar og Seðlabanka. Hefja verði aðgerðir í samráði við erlenda seðlabanka og vinaþjóðir og margfalda gjaldeyrisvarasjóðinn. Tryggja þurfi streymi erlends gjaldeyris inn í landið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×