Innlent

Fötluð börn fá inni í frístundaklúbbum í sumar

MYND/GVA

Borgarráð samþykkti á fundi sínum í morgun þá tillögu borgarstjóra að tryggja fötluðum börnum á aldrinum 10-16 ára vist í frístundaklúbbum í sumar.

Nítján milljónir vantaði upp á til þess að það gæti gengið upp og voru þær veittar til verkefnisins. Fram kemur í tilkynningu frá borginni að með samþykkt tillögunnar sé eytt þeirri óvissu sem fötluð börn og foreldrar þeirra hafa verið í vegna málsins. Borgarstjóra var jafnframt falið að hefja viðræður við félagsmálaráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga um frekari þróun á þjónustu við fötluð börn á aldrinum 10-16 ára og fjárhagslega þátttöku ríkisins í verkefninu.

Í tilkynningu frá Degi B. Eggertssyni, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, segir að borgarstjóri hafi með þessu fallið frá upphaflegum hugmyndum sínum um að efna til viðræðna við félagsmálaráðherra og Samband íslenskra sveitarfélaga um fjármögnun frístundanna.

Þá lagði minnihlutinn í borgarráði fram ályktun framkvæmdastjórnar Landssamtakanna Þroskahjálpar þar sem hugmynd borgarstjóra um viðræður var gagnrýnd. Jafnframt lét minnihlutinn færa til bókar að hann fagni því að borgarráð aflétti nú þegar óvissu um frístundastarf fatlaðra næsta sumar og tryggi fjárveitingar til verkefnisins í stað þess að þæfa það með viðræðum við félagsmálaráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga. „Þar með hafa hagsmunir fatlaðra barna og fjölskyldna þeirra verið að fullu tryggðir," segir einnig í bókuninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×