Íslenski boltinn

Skúffusamningar ólöglegir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Björgólfur Takefusa var með skúffusamning hjá Fylki.
Björgólfur Takefusa var með skúffusamning hjá Fylki. Mynd/Valli
Stjórn KSÍ bætti við greinagerð í reglugerð um knattspyrnumót sem lúta að samningamálum leikmanna. Nú er ólöglegt að nota leikmenn sem eru ekki með löglegan KSÍ samning.

Hingað til hafa félög komist upp með að tefla fram leikmönnum sem hafa ekki verið skráðir með KSÍ-samninga. Í mörgum tilvikum hafa leikmenn skrifað undir samning en af einhverjum ástæðum hafa félögin þeirra ekki skilað þeim inn til KSÍ.

Sem dæmi um þetta má nefna að Björgólfur Takefusa var aldrei skráður samningsbundinn leikmaður Fylkis þó hann hafi leikið með félaginu árin 2004 og 2005. Þetta má sjá á heimasíðu KSÍ með því að smella hér. Fleiri slík dæmi eru til.

Samkvæmt nýju greininni er ekki lengur nóg að vera með keppnisleyfi fyrir leikmenn heldur verða þeir að vera samningsbundnir viðkomandi félagi.

Félögum hefur þó verið gefinn frestur til 1. janúar 2009 til að uppfylla þessi skilyrði. Þetta á þó bara við félög í Landsbankadeild karla.

Leikmenn 2. aldursflokks eða yngri eru þó undanskildir þessu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×