Innlent

Mikill hugur í unglæknum eftir að kjarasamningur var felldur

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Ragnar Freyr Ingvarsson er formaður félags Ungra lækna.
Ragnar Freyr Ingvarsson er formaður félags Ungra lækna.

Mikill hugur er í unglæknum eftir að félagar í Læknafélag Íslands felldu nýgerðan kjarasamning við ríkið, að sögn Ragnars Freyrs Ingvarssonar formanns félags Ungra lækna.

Atkvæðagreiðslan hófst fyrr í mánuðinum og voru atkvæði talin í dag. Samningurinn var felldur í atkvæðagreiðslunni með 57% gildra atkvæða. Samningurinn gerði ráð fyrir 4,15 prósent launahækkun sem hafði falið í sér kjaralækkun að mati Ragnars.

,,Í úrslitunum felast skýr skilaboð og það er ljóst að við læknar þurfum að gera betur í okkar kjaramálum," segir Ragnar.

Ragnar segir að samninganefnd lækna muni koma saman fljótlega og fara yfir stöðuna. Því næst verða hagsmunaaðilar kallaðir til og í framhaldinu hefjast viðræður á nýjan leik við samninganefnd ríkisins.

,,Ef þeir vilja ekki tala við okkur er hægt að knýja menn að samningaborðinu," segir Ragnar en vildi ekki gefa meira upp þar sem slíkar aðgerðir verði að ræða á félagsfundi. ,,Eins og öll stéttarfélag eiga læknar sín réttindi til kjarabaráttu og það er ekkert sem útilokar að slíkt verði notað. Allavega ekki frá bæjardyrum ungra lækna."


Tengdar fréttir

,,Samningurinn verður kolfelldur"

,,Mín tilfinning er sú að samningurinn verður kolfelldur," segir Ragnar Freyr Ingvarsson, formaður félags Ungra lækna, um rúmlega nýlegan kjarasaming Læknafélags Íslands við fjármálaráðuneytið. ,,Það kæmi mér á óvart ef læknar samþykja þessa óáran yfir sig."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×