Innlent

Gjaldþrot stjórnarstefnu Sjálfstæðisflokksins

Staðan sem uppi er núna þýðir gjaldþrot stjórnarstefnu Sjálfstæðisflokksins og kannski er kominn tími til að flokkurinn fái frí frá stjórnun fjármála landsins. Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir, varaformaður Vinstri - grænna, í umræðum um stefnuræðu ráðherra í kvöld.

Katrín benti á að fjármálakreppan hefði leitt í ljós að hnattvæddur kapítalismi hefði ekki eingöngu kosti heldur einnig galla. Vandinn nú væri þó ekki aðeins bundinn við alþjóðafjármálaheiminn heldur væri hann einnig heimatilbúinn. Vinstri - græn hefðu ítrekað bent á þessa staðreynd á undanförnum misserum.

Benti Katrín á að skammtímaskuldbindingar bankakerfisins væru 3000 millljarðar og hin almenna skuldsetning hér á landi þýddi alvarlegri kreppu hér. Í fjármálalífinu hefðu menn skammtað sér ótrúlegar fjárhæðir og svo jafnvel gengið út úr bönkunum með þær. Þá hefði verið rekin meðvituð stefna um afskiptaleysi og lögmál markaðarins færð upp á grunnþjónustu. Nú væri svo komið að lögmál markaðarins hefðu tekið völdin af stjórnvöldum.

Katrín spurði hvað ríkisstjórnin ætlaði að gera og benti á að Íslendingar mættu ekki viðhalda kerfi sem hefði aukið á mismunun í samfélaginu. Lífeyrisþegar væru með 130 þúsund krónur á mánuði á sama tíma og fólk hefði tekið sér ofurlaun upp á hundruð milljóna.

Tók hún undir með formönnum stjórnarandstöðuflokkanna um að það þyrfti að kalla sama alla hagsmunaaðila til þess að leysa málin. Það gengi ekki að seðlabanki og seðlabankastjóri gerðu eitt og ríkisstjórnin annað. Forsætisráðherra þyrfti að viðurkenna mistök og reyna að greiða úr vandanum. Þá þyrfti að hverfa frá skammtímahugmyndafræði og skapa skýrara regluverk um hinn frjálsa markað. Kannski þyrftu sjálfstæðismenn frí frá fjármálastjórninni því ástandið þýddi í raun gjaldþrot stjórnarstefnu Sjálfstæðisflokksins.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×