Innlent

Hefur játað á sig árás á öryggisvörð

MYND/Valli

Hæstiréttur staðfesti í dag tveggja vikna gæsluvarðhaldsúrskurð yfir manni sem grunaður er um að hafa slegið öryggisvörð 10-11 í höfuðið með glerflösku um síðustu helgi. Þarf maðurinn að sitja í gæsluvarðhaldi til 23. apríl.

Eins og fram hefur komið var árásin fólskuleg og blæddi meðal annars inn á heila öryggisvarðarins. Læknar björguðu naumlega lífi hans en fram kemur í gæsluvarðhaldsúrskurði frá því á miðvikudag að erfitt sé að spá um batahorfur hans að svo stöddu.

Vísað er til þess í úrskurðinum að í upptöku úr eftirlitsmyndavél í miðborginni megi sjá hvar kærði standi nokkra stund fyrir utan verslunina og virðist sem hann sé þar að fylgjast með því sem gerist inni í versluninni. Þá sjáist hvar hann taki upp flösku og bíði færis. Síðar megi sjá með hvaða hætti hann veitist að starfsmanni verslunarinnar þegar að hann komi út úr verslun 10-11 í Austurstræti.

„Myndskeiðið beri að mati lögreglu með sér einbeittan ásetning til þess að fremja alvarlegt ofbeldisverk. Í ljósi þessa þyki árásin sérstaklega alvarleg og sé þá einnig litið til þess að fyrr um nóttina hafi þurft atbeina lögreglu til að fjarlægja kærða úr versluninni. Hann hafi svo komið öðru sinni að versluninni og virðist þá hafa ráðist að sama starfsmanni og áður hafði haft af honum afskipti. Af myndskeiðinu megi jafnframt ráða að engin samskipti hafi verið á milli kærða og brotaþola áður en hann hafi slegið hann af afli í höfuðið. Veruleg hætta hafi stafað af verknaðinum, þ.e. að slá annan mann í höfuðið með glerflösku, enda hafi litlu mátt muna að mannsbani yrði af völdum verknaðarins," segir í úrskurðinum.

Rannsókn málsins er nánast lokið en farið er fram á gæsluvarðhald þar sem ætla verði ríkissaksóknara eitthvert svigrúm til ákvörðunar um saksókn. Maðurinn hefur játað verknaðinn í yfirheyrslu hjá lögreglu en hann segist ekki hafa farið að versluninni í þeim tilgangi að ráðast að öryggisverðinum og að hann hafi tekið flöskuna upp eftir að hann hafi séð öryggisvörðinn koma út úr versluninni. Áður hafði kærði í skýrslutöku játað brotið en þó sagt að hann myndi ekki vel eftir því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×