Innlent

Ráðuneytisstjóri í Fjármálaráðuneytinu seldi hlutabréf í Landsbankanum mánuði fyrir þjóðnýtingu

Baldur Guðlaugsson, ráðuneytisstjóri í Fjármálaráðuneytinu seldi hlutabréf sem hann átti í Landsbankanum um mánuði áður en fjármálaeftirlitið yfirtók rekstur bankans.

Baldur náði því að selja hlutabréf sín áður en þau urðu algjörlega verðlaus eftir yfirtöku fjármálaeftirlitsins á bankanum. Hann neitaði viðtali en sagði í samtali við fréttastofu að þegar hann seldi bréfin hafi hann ekki haft neinar upplýsingar sem markaðurinn hafði ekki. Hann hafi tekið ákvörðun um sölu bréfanna eftir að fréttir birtust í blöðum um áhættu bankans á útlánatapi vegna lánveitinga. Hann segir jafnframt að hann hafi ekki keypt hlutabréf eftir að hann kom til starfa í ráðuneytinu þar sem hann telur það ekki samræmast starfi sínu.

Í ljós hefur komið að tveir breskir hagfræðingar gerðu skýrslu um íslenska fjármálakerfið að beiðni Landsbankans fyrr á þessu ári. Í niðurstöðum skýrslunnar kom fram að stærð bankanna stefndi hagkerfinu í hættu. Buiter, sem er annar höfundur skýrslunnar, segir að efni hennar hafi verið kynnt á málþingi og fyrir fulltrúum ríkisstjórnarinnar. Baldur segist aldrei hafa séð umrædda skýrslu og segist ekki hafa vitað af tilvist hennar fyrr en fyrir tveimur dögum. Hann hafi því ekki haft neinar upplýsingar um bága stöðu Landsbankans umfram þær sem voru í fjölmiðlum.

Upphæð viðskiptanna liggur ekki fyrir en fréttastofa hefur óskað eftir upplýsingum frá fjármálaeftirlitinu og skilanefnd Landsbankans um breytingar á hluthafaskrá mánuðinn áður en rekstur bankans var tekinn yfir. Þeirri beiðni hefur ekki verið svarað.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.