Innlent

Makaskiptasamningar margfaldast milli ára

MYND/Valgarður

Þinglýstir kaupsamningar um fasteignir í nýliðnum október reyndust 312 talsins á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt upplýsingum á vef Fasteignamats ríkisins. Fækkaði samningunum um tæp 14 prósent frá fyrra mánuði og um 67,5 prósent frá árinu á undan. Makaskiptasamningum hefur fjölgað mikið á síðustu mánuðum miðað við sömu mánuði í fyrra.

Alls nam veltan í október síðastliðnum tæpum níu milljörðum og meðalupphæð á hvern kaupsamning var 28,6 milljónir króna. Í september voru samningarnir hins vegar 362, veltan rúmir ellefu milljarðar og meðalupphæð á hvern kaupsamning 31,2 milljónir króna.

Hins vegar voru kaupsamningarnir 960 í október í fyrra, veltan rúmur 31 milljarður og meðalupphæð á hvern kaupsamning 32,6 milljónir króna.

Á Akureyri reyndust þinglýstir kaupsamningarnir 34 í október, 38 á Árborgarsvæðinu, sjö á Akranesi og 18 samningum var þinglýst í Reykjanesbæ.

Fasteignamatið hefur einnig tekið saman tölur um makaskiptasamninga, þar sem skipt er á fasteignum, á höfuðborgarsvæðinu. Alls reyndust makaskiptasamningar á síðustu þremur mánuðum 163 talsins en á sama tímabili í fyrra reyndust þeir 41 og 29 sömu mánuði árið 2006. Hefur fjöldi þeirra því um fjórfaldast frá því í fyrra og fimmfaldast frá árinu 2006.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×