Innlent

Hús starfslokabæjarstjórans óselt

Ólafur Örn Ólafsson, fyrrverandi bæjarstjóri Grindavíkurbæjar.
Ólafur Örn Ólafsson, fyrrverandi bæjarstjóri Grindavíkurbæjar.

Einbýlishús Ólafs Arnar Ólafssonar, fyrrum bæjarstjóra í Grindavík, er enn óselt og lítur allt út fyrir að bæjarfélagið þurfi að kaupa húsið.

Ráðningarsamningur Ólafs komst í hámæli í sumar þegar upp úr slitnaði í meirihlutasamstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Í framhaldinu mynduðu framsóknarmenn nýjan meirihluta með Samfylkingunni og lét Ólafur á þeim tímamótum af störfum sem bæjarstjóri.

Ráðningartími Ólafs var út yfirstandandi kjörtímabil og af því loknu fær hann að auki sex mánaða laun. Næstu sveitarstjórnarkosningar fara fram í maí 2010. Í heildina mun Ólafur því fá greidd laun í 28 mánuði frá starfslokum.

Í samningunum er ákvæði sem skuldbindur Grindavíkurbæ til að kaupa einbýlishús Ólafs takist honum ekki að selja það sex mánuðum eftir starfslok. Húsið var keypt á rúmar 40 milljónir króna árið 2007.

Jón Þórisson, fjármálastjóri Grindavíkurbæjar, segir að bæjarfélagið mun að öllum líkindum kaupa húsnæðið 15. janúar náist ekki að selja það fyrir þann tíma. Ólafur fær þá greitt fyrir upphaflegt kaupverð hússins framreiknað með vísitölu. Jón segir að reynt verði að selja húsið á nýjan leik. Það sé ekki hugsað sem framtíðareign.

Mánaðarlaun Ólafs voru rúmlega 1,2 milljónir króna og jafnframt verðtryggð. Heildarkostnaður Grindavíkurbæjar með launatengdum gjöldum við launahluta samkomulagsins er yfir 42 milljónir króna.

Þegar núverandi meirihluti tók við 14. júlí voru laun bæjarstjóra lækkuð um 20%. Auk þess hefur sitjandi bæjarstjóri ekki samskonar ákvæði og Ólafur hafði um húsnæði sitt í ráðningarsamningi sínum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×