Innlent

Skoða þarf hvort afnema þurfi bankaleynd í rannsókn á bankahruni

MYND/Heiða

Formaður viðskiptanefndar telur að skoða þurfi hvort afnema þurfi bankaleynd þegar rannsaka eigi hrun bankanna. Viðskiptanefnd fékk bankastjóra nýju ríkisbankanna á sinn fund í morgun.

„Við ræddum og fórum vítt og breytt yfir ástandið sem ríkir í hagkerfinu og á fjármálamörkuðum. Sömuleiðis spurðum við töluvert í stöðu einstakra banka og reyndum að fá aðeins fyllri mynd hvað búið sé að gera og hvað sé fram undan," sagði Ágúst Ólafur Ágústsson, formaður viðskiptanefndar, eftir fundinn.

Fyrir fundinn dreifðu fulltrúar Landsbanakans yfirlýsingu þar sem fram kom að þeir gætu ekki tjáð sig um málefni einstakra viðskiptavina. Þeir fullvissuðu nefndina hins vegar um að farið hefði verði eftir samkeppnislögum í einu og öllu í ákvörðunum undanfarna daga.

Ágúst Ólafur fagnar því en segir að bankaleyndina þurfi að skoða þegar kemur að því að rannska hrun bankanna. „Það er tómt mál að gera upp þetta mál og rannska orsakir hrunsins ef bankaleynd, lögbundin bankaleynd, kemur í veg fyrir að vissar upplýsingar komist í dagsljósið," segir Ágúst ÓIafur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×