Innlent

Forystumenn ríkisstjórnarinnar funda með Kaupþingsmönnum

Hreiðar Már Sigurðsson forstjóri Kaupþings og Sigurður Einarsson stjórnarformaður.
Hreiðar Már Sigurðsson forstjóri Kaupþings og Sigurður Einarsson stjórnarformaður.

Geir H. Haarde forsætisráðherra, Össur Skarphéðinsson starfandi utanríkisráðherra, Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra og Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra sitja nú á fundi með forráðamönnum Kaupþings í Ráðherrabústaðnum.

Forsætisráðherra vildi lítið gefa upp um gang viðræðna um aðgerðarpakka ríkisstjórnarinnar, aðila vinnumarkaðarins, lífeyrissjóðanna og bankanna þegar hann kom til fundarins klukkan níu í morgun. Þegar hann var spurður út í orðróm um að verkalýðshreyfingin gerði kröfu um að því yrði líst yfir að hálfu ríkisstjórnarinnar að stefnt yrði að aðild að Evrópusambandinu, sagði Geir að þær kröfur hefðu ekki komið fram, en ef þær gerðu það, væru þær með öllu óaðgengilegar. Í því ástandi sem nú ríkti einbeittu menn sér einfaldlega að öðru. Össur Skarphéðinsson sagðist heldur ekki geta staðfest þessa kröfu verkalýðshreyfingarinnar en allir þekktu afstöðu hans í þessum efnum og hann gæti samþykkt allar góðar tillögur.

Sigurður Einarsson stjórnarformaður Kaupþings og Hreiðar Már Sigurðsson forstjóri Kaupþings komu í Ráðherrabústaðinn upp úr klukkan níu en við mótun aðgerðaráætlunarinnar er gert ráð fyrir aðkomu bankanna með einhverjum hætti. Stefnt er að því að hægt verði að kynna aðgerðaráæltlunina fyrir opun markaða í fyrramálið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×