Erlent

Allt að 70 prósenta afsláttur í breskum verslunum fyrir jólin

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Oxford-stræti í jólabúningi.
Oxford-stræti í jólabúningi.

Breskir verslunareigendur veita allt að 70 prósenta afslátt síðustu klukkustundir jólaverslunarinnar og berjast hart um hylli neytenda.

„Dagr er upp kominn, dynja hana fjaðrar, mál er vílmögum at vinna erfiði." Þessar ljóðlínur má lesa í Bjarkamálum hinum fornu og það er engu líkara en verslunarstjórar breskra glæsiverslana hafi rétt í þessu verið að leggja það ágæta fornkvæði frá sér. Þeir stara nú möttum og stjörfum augum fram á síðustu 48 klukkustundirnar af jólaversluninni og ekki virðist laust við að örvæntingar gæti að minnsta kosti sums staðar.

Nú hefst nefnilega baráttan um hópinn sem bíður með jólainnkaupin fram á síðustu mínútu og þar eru engin grið gefin. Zavvi-bókaverslanirnar gefa allt að 70 prósenta afslátt þessar lokamínútur og ef það hljómar ekki nógu öfgafengið byrjar innréttingaverslunin B & Q janúarútsölu sína á aðfangadagskvöld, heilli viku áður en janúar rennur upp.

Neytendur eru engir asnar og þess vegna er það óvenjustór hópur í ár sem bíður með lokakaupin þar til í dag og á morgun. Þeir vita að verslunareigendur eru tilneyddir að gefa ríflega afslætti enda óvíst hvaða verslanir standa enn í lok janúar. Bretar fá sér kannski ekki kæsta skötu í dag en þeir geta fengið alla 33 þættina af Inspector Morse á 39,99 pund hjá Zavvi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×