Innlent

Fangi á Vernd sýknaður í peningafalsmáli

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað karlmann um tvítugt af ákæru um peningafölsun. Í ákærunni var manninum gert að sök að hafa greitt með tveimur fölsuðum fimm þúsund króna seðlum fyrir pítsur, sem sendar voru til mannsins þar sem hann var vistaður á áfangaheimilinu Vernd. Dómari taldi ekki sannað, að maðurinn hefði borgað með seðlunum.

 

Samkvæmt dómnum fór pítsusendill til mannsins með veitingar sem hann pantaði og reikning sem hljóðaði upp á rúmar 6000 krónur Maðurinn greiddi með tveimur 5000 króna seðlum og fékk ekki til baka. Sendillinn segist hafa gert sér grein fyrir því að seðlarnir hafi verið falsaðir þegar að hann sneri aftur á veitingastaðinn. Hann hafi látið yfirmann sinn vita sem kallaði til lögreglu.

Í skýrslum lögreglu kemur fram að við yfirheyrslu að misræmis hafi gætt í frásögn hins grunaða af því hvernig hann hefði fengið 5000 króna seðlana sem hann greiddi veitingarnar með. Þá kemur jafnframt fram að fundist hafi bréf, frá samfanga hins ákærða af Litla-Hrauni, með fyrirætlunum um að falsa peningaseðla

Dómurinn segir hins vegar í niðurstöðu sinni að lögreglumenn hafi farið í matsöluna og tekið við fölsuðu seðlunum úr hendi verslunar- eða varðstjórans þar. Hann hafi aldrei verið yfirheyrður vegna málsins og því verði ekkert fullyrt um það hvernig seðlar þessir voru geymdir þar til að þeir voru afhentir lögreglunni. Því sé ekki hægt að slá því föstu að hinir fölsuðu seðlar séu hinir sömu og sá ákærði afhenti sendlinum í umrætt sinn. Héraðsdómur dæmdi því hinn ákærða sýknan saka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×