Lífið

Barnasýningin Óskin á Kópavogsdögum

Snjólfur og Þrúður á góðri stundu.
Snjólfur og Þrúður á góðri stundu.
Einleikhúsið frumsýnir barnaleiksýninguna Óskina á Kópavogsdögum á laugardaginn. Óskin er ævintýri með frumsömdum söngvum fyrir yngstu áhorfendurna. Hún er farandsýning fyrir leikskóla og yngsta bekk grunnskóla og tekur um það bil 45 mínútur í flutningi.

Sýningin fjallar um vináttu lítillar stúlku og snjókalls. Hún heitir Þrúður og vill vera trúður, hann heitir Snjólfur snjókall og þarf að komast upp í fjall - því hann er að bráðna. Á leiðinni upp í fjall lenda þau í ýmsum ævintýrum. Á vegi þeirra verða meðal annars úlfurinn ógurlegi, Grýla skítafýla og bangsi bestaskinn sem huggar við kinn.

Leikarar eru tveir og flytja þeir alla tónlist í sýningunni. Höfundar eru Sigrún Sól Ólafsdóttir og Pálmi Sigurhjartarson. Sigrún leikstýrir einnig verkinu og Pálmi semur alla tónlistina. Leikarar eru Ásta Sighvats Ólafsdóttir og Sigurður Eyberg Jóhannesson. Myrra Leifsdóttir hannar búninga, leikmynd og grafík.

Óskin verður frumsýnd laugardaginn 3. maí í Bókasafni Kópavogs. Sýningin hefst klukkan 13. og er aðgangur ókeypis.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.