Íslenski boltinn

Tryggvi með tvennu fjórða leikinn í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tryggvi Guðmundsson.
Tryggvi Guðmundsson.
FH-ingar eru komnir áfram í UEFA-bikarnum eftir 5-1 stórsigur á Grevenmacher í seinni leik liðanna í Lúxemborg. FH vann fyrri leikinn 3-2 í Kaplakrika og þar með 8-3 samanlagt. Tryggvi Guðmundsson og Atli Guðnason skoruðu tvö mörk hvor og Björn Daníel Sverrisson skoraði eitt.

Heimir Guðjónsson, þjálfari liðsins, var ánægður í leikslok.

„Við vorum aðeins að þreifa fyrir okkur í fyrri hálfleik og þeir voru þá líflegir. Í seinni hálfleik þá var bara eitt lið á vellinum og við höfðum getað skorað fleiri mörk. Við spiluðum þá sundur og og saman og unnum mjög góðan sigur," sagði Heimir sem getur verið ánægður með útkomuna eftir áfall í fyrri leiknum.

„Við spiluðum ekki vel fyrsta hálftímann í fyrri leiknum og þeir skoruðu tvö mörk og það er dýrt að fá á sig tvö mörk á heimavelli í Evrópukeppni. Þetta FH-lið hefur sýnt það í gegnum tíðina að við erum ekkert síðri á útivelli en heimavelli í Evrópukeppni og við sýndum það í dag," sagði Heimir og bætti við. „Sóknarleikurinn var til fyrirmyndar og þá sérstaklega í seinni hálfleik og boltinn gekk í fáum snertingum," sagði Heimir.

Hinn átján ára Björn Daníel Sverrisson lék sinn fyrsta Evrópuleik og skoraði fimmta og síðasta mark FH í leiknum. „Björn er mjög efnilegur leikmaður og hefur fengið tækifæri og staðið sig vel. Það var gaman að hann skyldi skora í fyrsta Evrópuleiknum og hann kórónaði góðan leik sinn með því að skora," sagði Heimir.

Þetta er líka fjórði leikurinn í röð sem Tryggvi skoraði tvennu en hann skoraði einnig tvö mörk í fyrri leiknum og svo í síðustu deildarleikjum á móti HK og ÍA. Tryggvi varð einnig fyrsti leikmaðurinn til þess að skora tíu Evrópumörk fyrir íslenskt lið. „Tryggvi spilaði ekki vel á tímabili en kom sterkur upp þegar liðið þurfti á honum að halda og hann hefur staðið sig vel upp á síðkastið," sagði Heimir um frammistöðu Tryggva.

FH er eina íslenska karlaliðið sem er eftir í Evrópukeppninni en Valur og ÍA eru dottin út. „Það er bara dregið á morgun (í dag) og ég veit ekki hvaða lið við getum fengið. Vonandi fáum við mótherja sem við eigum möguleika í," sagði Heimir að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×