Innlent

Norðmenn tilbúnir að miðla málum í deilu Íslendinga og Breta

MYND/Stöð 2

Jonas Gahr Störe, utanríkisráðherra Noregs, segir Norðmenn tilbúna til þess að miðla málum í deilu Íslendinga og Breta vegna Icesave-reikninganna. Þetta kom fram á blaðamannafundi hans og Geirs H. Haarde forsætisráðherra eftir fund þeirra í Ráðherrabústaðnum í dag. Störe er hér í opinberri heimsókn.

Hann sagði að Norðmenn og hin norrænu ríkinu myndu verða í fremstu röð við að veita Íslendingum aðstoð við að komast út úr erfiðleikunum. Hann sagði enga upphæð hafa verið nefnda enn þá í þeirri aðstoð sem Noregur væri tilbúinn að veita Íslandi en það yrði þó kynnt á allra næstu dögum.

Aðspurður um lán frá Rússum til Íslendinga sagði Störe að það væri samdóma álit að Íslandi væri best borgið með því að sem flestir kæmu að því að leysa vanda landsins. Það væri löngu búið að leggja af kaldastríðshugsunarhátt í garð Rússa.

Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði að viðræður þeirra Störe hefðu verið mjög gagnlegar og það sem þeir hefðu rætt væri trúnaðarmál enn sem komið væri. Hann yrði var við mikinn vilja til þess að hjálpa Íslendingum að leysa vanda sinn og útlitið í þeim málum væri gott.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×