Innlent

Öryggisgæsla hert á Alþingi í kjölfar átaka

Öryggisgæsla hefur verið hert á Alþingi eftir að til átaka kom milli mótmælenda og þingvarða í þinghúsinu í gær. Þingpallarnir voru þó opnir almenningi í dag.

Til átaka kom á Alþingi í gær þegar hátt í þrjátíu manna hópur mótmælenda reyndi að komast inn á þingpallana. Tveir þeirra náðu inn á pallana þar sem þeir kölluðu til þingmanna. Gripið hefur verið til ráðstafana til að slík uppákoma endurtaki sig ekki. Sturla Böðvarsson forseti Alþingis segir að öryggisgæsla hafi verið hert í húsinu en þrír lögreglumenn vöktuðu til að mynda innganginn að þingpöllunum í dag.

Þrír þurftu á læknisaðstoð að halda eftir átökin. Einn þeirra er þingvörður sem slasaðist þegar honum var hrint á miðstöðvarofn. Hinir tveir eru lögreglumenn og var annar þeirra bitinn í höndina en hinn í öxlina. Sjö voru handteknir í átökunum.

Sturla segir alvarlegt mál að þingverðir séu yfirbugaðir og hindraðir við störf. Það verði ekki látið viðgangast að gengið sé fram með þeim hætti sem gert var í gær gagnvart starfsfólki þingsins. Þær öryggisaðgerðir sem þegar hafi verið gripið til eigi að tryggja það.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×