Íslenski boltinn

Hólmfríður sú fjórða til að skora þrennu í úrslitaleiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hólmgríður Magnúsdóttir
Hólmgríður Magnúsdóttir Mynd/Daníel

Afmælisbarnið Hólmfríður Magnúsdóttir varð fjórða konan til þess að skora þrennu í bikarúrslitum kvenna þegar hún skoraði þrjú fyrstu mörk KR í 4-0 stórsigri á bikarmeisturum Vals á Laugardalsvellinum í dag.

Hólmfríður skoraði öll mörkin sín á svipaðan hátt eftir að hafa fengið stungusendingar í gegnum Valsvörnina. Hrefna Huld Jóhannesdóttir, Guðrún Sóley Gunnarsdóttir og Olga Færseth lögðu upp mörk Hólmfríðar í bikarúrslitaleiknum í dag. Hólmfríður kann greinilega að halda upp á afmælið sitt en hún varð 24 ára gömul í dag.

Skagakonan Jónína Víglundsdóttir varð fyrsta konan til að skora þrennu í bikaúrslitum kvenna þegar hún skoraði þrjú af sex mörkum ÍA í stórsigri á Keflavík í bikarúrslitaleiknum fyrir sautján árum. Síðan hafa Erla Hendrisdóttir (Breiðabliki 1996), Margrét Lára Viðarsdóttir (Val 2006) og svo Hólmfríður bæst í hópinn.

Hólmfríður og fyrirliði hennar í KR-liðinu, Hrefna Huld Jóhannesdóttir, eru líka báðar komnar í hóp markahæstu leikmenna í bikarúrslitum kvenna eftir þennan leik því þær hafa báðar skorað fjögur mörk í bikarúrslitaleikjum.

Félagi þeirra í KR-liðinu Olga Færseth tókst hinsvegar ekki að bæta við marki en hún er eina af þremur sem hafa skorað flest mörk í bikarúrslitum kvenna.

Þrennur í bikarúrslitum kvenna:

Jónína Víglundsdóttir, ÍA 1991 á móti Keflavík

Erla Hendriksdóttir, Breiðabliki 1996 á móti Val

Margrét Lára Viðarsdóttir, Val 2006 á móti Breiðabliki

Hólmfríður Magnúsdóttir, KR 2008 á móti Val



Markahæstu leikmenn í bikarúrslitum kvenna:


5 - Jónína Víglundsdóttir ÍA {1989(2), 1991(3)}

5 - Erla Hendriksdóttir Breiðablik {1996(3), 1997(1), 1998(1)}

5 - Olga Færseth Breiðablik og KR {1992(1), 1998(1), 2002(2), 2007(1)}

4 - Ásgerður Ingibergsdóttir Val og KR {1997(1), 2001(1), 2002(1), 2005(1)}

4 - Hólmfríður Magnúsdóttir KR {2002(1), 2008(3)}

4 - Hrefna Huld Jóhannesdóttir KR {2002(1), 2007(2), 2008(1)}






Fleiri fréttir

Sjá meira


×