Innlent

Deildar meiningar um hálkuvarnir

Strætisvagn lenti í vandræðum á Akureyri í morgun vegna hálku. Deildar meiningar eru um hvort mengunarvarnir bæjarins gegn svifryki bitni á hálkuvörnum.

Mælingar hafa sýnt að svifryk á Akureyri fer oft yfir leyfileg heilsuverndarmörk. Þess vegna ákvað bærinn fyrir skemmstu að sandburður yrði stórminnkaður en sandur hefur verið helsta tæki bæjarins gegn hálku á götum.

En í morgun söknuðu margir sandsins þegar fljúgandi hálku gerði á götum bæjarins á sama tíma og varnir gegn henni þóttu rýrar í roði. Eftir að strætó lenti í vandræðum í Gilinu og rann niður götuna, en þó án þess að eignatjón yrði eða nokkur slasaðist, fór lögregla fram á að bærinn bætti ástandið. Varð niðurstaðan sú að bærinn dreifði salti eins og hefð er fyrir á höfuðborgarsvæðinu en mikil andstaða hefur alltaf verið á Akureyri gegn saltinu.

Annars segir lögregla furðu sæta hvað umferð gekk vel á Akureyri í hálkunni í morgun miðað við að flestir eru enn á sumardekkjum. Þó varð lítils háttar umferðaróhapp í Hörgárdal.

Mikið annríki hefur verið á hjólbarðaverkstæðum í dag enda má samkvæmt veðurspánni búast áfram við kulda og hálku á Norðurlandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×