Innlent

Átti yndislega daga með dótturinni

Breki Logason skrifar
Styrktartónleikar verða haldnir á Nasa annað kvöld.
Styrktartónleikar verða haldnir á Nasa annað kvöld.

Dagbjört Rós Halldórsdóttir sem átt hefur í forræðisdeilu við bandarískan barnsföður sinn fékk loksins að hitta dóttur sína nú í enda apríl. Þá hafði Dagbjört ekkert heyrt í dótturinni síðan í janúar. Tónleikar til styrktar Dagbjörtu fara fram á Nasa annað kvöld þar sem rjóminn af íslenskum tónlistarmönnum kemur fram.

„Það var æðislegt að fá að hitta hana loksins aftur og við áttum æðislega daga saman," segir Dagbjört sem var með dóttur sína, Caitlin, í þá tólf daga sem hún dvaldi í Bandaríkjunum. Hún segir þó hafa verið erfitt að kveðja stelpuna sem vildi alls ekki fara frá mömmu sinni.

Vísir hefur fylgst með baráttu Dagbjartar sem fékk ekki landvistarleyfi í Bandaríkjunum og þurfti því að skilja stúlkuna eftir. Síðan þá hefur hún átt í harðri forræðisdeilu en hefur umgengisrétt yfir stúlkunni þegar hún kemur til Bandaríkjanna þann rétt nýtti Dagbjört sér til fulls í ferð sinni út.

„Við fórum út að labba og leika og horfðum á Diego sem er í miklu uppáhaldi hjá henni. Ég reyndi að hafa þetta bara sem eðlilegast. Við fórum reyndar í sirkus og sáum fíla og annað skemmtilegt," segir Dagbjört en aðalmeðferð í forræðismálinu fer fram í Bandaríkjunum þann 5. og 6.júní.

Caitlin litla var með mömmu sinn í tólf daga í enda apríl

Hún segir þó verst að hafa ekki getað tekið 6 ára gamlan son sinn með út. „Hann spyr mikið um systur sína og saknar hennar rosalega mikið."

Það er ekki ókeypis að standa í forræðisdeilu þvert yfir Atlantshafið og hafa vinir og vandamenn Dagbjartar staðið þétt við bakið á henni.

Olga Helgadóttir vinkona Dagbjartar hefur m.a skipulagt styrktartónleika á Nasa annað kvöld. Þar munu Páll Óskar, Birgitta Haukdal, Ragnheiður Gröndal, Bryndís Jakobsdóttir og Helga Dýrfinna koma fram auk hljómsveitanna Myst og Afrek.

Hægt verður að kaupa miða við innganginn og opnar húsið klukkan 20:30 en tónleikarnir hefjast klukkan 21:00.

Miðaverð er 1500 krónur og er 20 ára aldurstakmark.


Tengdar fréttir

Tónleikar til styrktar Dagbjörtu

Tónleikar verðar haldnir til styrktar Dagbjörtu Rós Halldórsdóttur þann 15. maí á skemmtistaðnum Nasa. Eins og greint hefur verið frá í ýmsum fjölmiðlum stendur Dagbjört í harðvítugri forræðisdeilu við bandarískan barnsföður sinn.

Hefur ekkert heyrt í dóttur sinni síðan í janúar

Dagbjört Rós Halldórsdóttir hefur ekki séð rúmlega tveggja ára gamla dóttur sína síðan í janúar. Hún flýgur til Bandaríkjanna á morgun með von um að hitta stúlkuna en barnsfaðir hennar svarar hvorki tölvupóstum né símtölum.

Dagbjört hitti Caitlin litlu

“Núna er ég búin að tala við Dagbjörtu og Caitlin er hjá henni eins og er, það gengur rosalega vel,” skrifar vinkona Dagbjartar Rósar á bloggsíðu Dagbjartar í gærkvöldi.

Caitlin litla ekki heim fyrir þessi jól

Sagan um hana Caitlin litlu ætlar að vera lífseig. Dagbjört Rós móðir hennar er nú komin heim frá Bandaríkjunum þar sem hún hitti stelpuna og kom fyrir dómara í forræðismáli sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×