Innlent

Neytendastofa segir Tiguan geta lagt í stæði

MYND/Vilhelm
Neytendastofa sér ekki ástæðu til að aðhafast sérstaklega vegna kvörtunar B & L yfir auglýsingu frá Heklu þar sem fullyrt var að Volkswagen Tiguan væri kraftmesti sportjeppinn og að bifreiðin gæti sjálf lagt í stæði. Frétt Stöðvar 2 þótti hafa sannað hið síðarnefnda.

B & L kvartaði til Neytendastfou í síðasta mánuði vegna auglýsingarinnar en Hekla svaraði því til að fyrir mistök hefði auglýsin með fullyrðingunni að Tiguan væri kraftmesti sportjeppinn verið birt í örfá skipti. Þá sagði í svari Heklu að Tiguan innihéldi staðalbúnað sem nefndist Park Assist Control sem gerði bifreiðinni kleift að leggja sjálf í stæði án íhlutunar ökumanns. Kæmi hins vegar eitthvað óvænt upp á þyrfti ökumaðir að hemla.

Í úrskurði Neytendastofu kemur fram að það sé brot á lögum að nota auglýsingar með fullyrðingum í efsta stigi lýsingarorðs, eins og að jeppi sé kraftmestur. Auglýsandi geti ekki firrt sig ábyrgð á því sem fram komi í auglýsingu með því að bera fyrir sig að um mistök hafi verið að ræða.

Varðandi síðari þáttinn þá taldi Neytendastofa eftir að hafa farið yfir gögn málsins og frétt Stöðvar 2 að sýnt hefði verið fram á með fullnægjandi hætti að Tiguan gæti lagt sjálfur í stæði. Í ljósi þess að birtingu auglýsingarinnar með fullyrðingu í efsta stigi lýsingarorðs væri hætt væri ekki ástæða til að aðhafast frekar í málinu.

Hægt er að sjá frétt Stöðvar 2 hér.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×