Innlent

Árásarmaðurinn hefur komið fram sem talsmaður bílstjóranna

Ágúst er lengst til hægri. Við hlið hans stendur Sturla Jónsson.
Ágúst er lengst til hægri. Við hlið hans stendur Sturla Jónsson.

Maðurinn sem réðst á lögreglumann við Kirkjusand í dag heitir Ágúst Fylkisson. Hann hefur undanfarið komið fram sem einn af talsmönnum vörubílstjóra í mótmælum þeirra. Aðrir talsmenn bílstjóranna hafa í dag fordæmt atvikið og sagt að árásarmaðurinn tengist vörubílstjórum ekki á nokkurn hátt. Maðurinn hefur verið yfirheyrður og er hann laus úr haldi lögreglu.

Ágúst hefur verið titlaður talsmaður bílstjóranna nokkrum sinnum á mbl.is, meðal annars þegar þeir söfnuðust saman í Tryggvagötu fyrir framan Hafnarhúsið í byrjun apríl og á Kringlumýrarbraut í lok mars.

Sturla Jónsson, annar talsmaður bílstjóranna sagði síðan í fréttum Stöðvar 2 að maðurinn sem veittist að lögreglumanninum hafi verið vegfarandi en ekki bílstjóri. Þegar Vísir hafði samband við Sturlu í kvöld játti hann því að Ágúst hefði verið titlaður talsmaður bílstjóranna en að í dag hafi ekki staðið til að hann yrði á staðnum.

„Hann kom bara þarna óvænt. Menn voru bara í skýrslutöku í dag og fóru svo að sækja tækin sín. Það átti ekkert að gerast í dag og við fordæmum þetta hroðalega atvik," segir Sturla. Hann tekur fram að Ágúst sé ekki vörubílstjóri heldur hafi hann verið í léttum flutningum. Nú eigi hann hins vegar ekki sendibíl. „En hann hefur haft mikinn áhuga á þessum málum," segir Sturla að lokum og bætir því við að bílstjórarnir séu hvergi nærri hættir mótmælum sínum. „Það gerist ekki fyrr en þessir moðhausar fara að opna á sér augun," sagði Sturla og átti þar við ráðamenn þjóðarinnar.

Árásina má sjá hér.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.