Innlent

Bjarni: Stjórnvöld of hikandi varðandi málshöfðun

Bjarni Benediktsson, formaður utanríkismálanefndar.
Bjarni Benediktsson, formaður utanríkismálanefndar.

Þingmenn ræddu lögsóknir gegn Bretum í umræðu um störf þingsins í dag. Þar kom fram gagnrýni á þann seinagang sem mörgum finnst vera í málinu en frestur til málsókna rennur út í janúar. Bjarni Benediktsson, formaður utanríkismálanefndar, sagði að nefndin leggi á það gríðarlega áherslu að gætt verði að hagsmunum Íslendinga til þess ítrasta. Bjarni tók að hluta undir með stjórnarandstöðunni sem talaði um seinagang og aðgerðarleysi. Að hans mati hafa stjórnvöld verið of hikandi í málinu.

Árni Páll Árnason, varaformaður utanríkismálanefdnar, sagði að um tvö aðskilin mál væri að ræða. Annarsvegar væri málsókn Kaupþings vegna þess tjóns sem bankinn varð fyrir þegar bresk stjórnvöld tóku yfir Singer & Friedlander. Hinsvegar sé spurningin um möguleika ríkissins á málssókn gagnvart bresku ríkisstjórninni.

Bjarni Benediktson formaður nefndarinnar benti á að málið væri í höndum framkvæmdavaldsins og að nefndin hefði ekki frumkvæði í málinu. „Ég hallast að því að þetta sé fyrst og fremst málefni skilanefndanna og það sé félagannna sjálfra að gæta sinna hagsmuna, en það þarf stuðning frá stjórnvöldum," sagði Bjarni og bætti við að honum þætti of mikið hik hafa verið á stjórnvöldum í málinu.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, sagði málið einfalt. Tíminn sé að renna út og augljóst sé að málið hafi ekki verið unnið af fullum krafti. Hann sagðist þeirrar skoðunnar að möguleikar ríkisins til málssóknar séu afar litlir. Málið sé í höndum skilanefnda Kaupþings og Landsbankans, en Landsbankinn verði að höfða mál gegn breskum yfirvöldum í ljósi þess að hryðjuverkalögum var beitt gegn honum. Hann benti á að tvær vikur væru til stefnu og það væri um stórkostlega vanrækslu að ræða renni fresturinn til málshöfðunar út án þess að gripið verði til aðgerða.

Sigurður Kári Kristjánsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins tók undir með félögum sínum á þingi: „Ég vil fyrir mitt leyti leggja áherslu á að stjórnvöld geri allt sem í þeirra valdii sem tryggir að hægt verði að höfða mál gagnvart breska ríkinu." Hann segir mjög mikilvægt að höfða mál til „þess að sýna fram á að við sættum okkur ekki við að hryðjuverkalögum sé beitt. Ég tel að málshöfðun gegn þessum mönnum séu sterkustu skilaboðin um að við sættum okkur ekki við þetta."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×