Innlent

Rætt við ýmsa aðila

Viðskiptaráðherra segir að efnahagsástandið verði skýrt og bætt á næstu dögum. Hann segir að verið sé að ræða við ýmsa, en vill ekki gefa upp hverja, né hvenær niðurstaða fáist. Hann neitar því að ríkisstjórnin sé ráðalaus. Þá segir hann fráleitt að olíuskortur sé yfirvofandi á landinu. Forsætisráðherra vildi ekki ræða við fréttamenn að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.

Allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar fyrir utan Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sátu ríkisstjórnarfund í morgun. Stór verkefni bíða úrlausnar ríkisstjórnarinnar. Forsætisráðherra sagðist vera að flýta sér á Alþingi og sagðist aðspurður um hvort aðgerðir hefðu verið ræddar að það væri ekkert sem væri í frásögur færandi.

Og þar með var hann rokinn út í bíl með fréttamenn á hælunum. Á leið sinni inn í bílinn var Geir spurður að því hvort samningur við norrænu seðlabankana yrði nýttur. „Við getum ekki svarað þessu svona, allra síst við þessar aðstæður eins og þið eruð að skapa mér núna," sagði Geir.





MYND/Stöð 2

Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra segir að ekki hafi verið leitað til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins enda væri það neyðarúrræði. Aðspurður hvort ríkisstjórnin hafi á annað borð leitað eftir lánum segir Björgvin að að sjálfsögðu standi yfir sífelld leit að erlendu láni en það sé verið að vinna að mörgu öðru og frá því verði greint og það liggi fyrir. Þá bendir hann á að peningar séu til í gjaldeyrisvarasjóði ríkisins.

Hann vill ekki tímasetja hvenær aðgerðir verða kynntar og aðspurður hvort tíminn sé ekki afar naumur segir Björgvin: „Tíminn er bara eins og hann er, við höfum enga valkosti um það." Íslendingar muni sigla út úr þessum ólgusjó.

Viðskiptaráðherra segir fólk eðlilega óttaslegið. Aðspurður hvort ríkisstjórnin eigi þá ekki að slá á ótta fólks og greina frá aðgerðum segir Björgvin að óábyrgt sé að gefa eitthvað út sem sé ekki í hendi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×