Innlent

Segir málflutning Bjarkar villandi

MYND/GVA

Jón Steindór Valdimarsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, sakar Björk Guðmundsdóttur um villandi málflutning í grein sem hann ritar í breska blaðið Times.

Með greininni er hann að svara grein Bjarkar sem birt var í blaðinu í síðustu viku. Þar gagnrýnid Björk íslensk stjórnvöld meðal annars fyrir stefnu þeirra í orku- og umhverfismálum og sagði of mikla áherslur á álframleiðslu í landinu. Varaði hún við hvers kyns töfralausnum í núverandi ástandi.

Jón Steindór segir hins vegar í grein sinni í Times að Íslendingar hafi í nærri hálfa öld nýtt orkuauðlindir sínar á skynsaman hátt. Með falli bankanna sé það enn mikilvægara fyrir þjóðina en áður að nýta auðlindir sínar á skynsaman og sjálfbæran hátt. Þá bendir hann að 80 prósent af orkunni sem nýtt sé hér á landi sé endurnýjanleg en ESB hafi stefnt að því að ná hlutfallinu í 20 prósent fyrir árið 2020. Þá sé útblástur frá álverum einn sá minnsti í heimi.

Hann viðurkennir þó að viðskiptaumhverfið hafi ekki verið hagstætt frumkvöðlum í hátækniiðnaði og að Samtök iðnaðarins hafi ítrekað bent á þetta á síðustu árum. Þar sé hins vegar ekki við áliðnaðinn að sakast heldur fremur peningastefnuna sem hafi haft í för með sér óeðlilega sterka krónu og háa vexti.

Þá bendir Jón Steindór á að Alþingi hafi fyrir 15 árum sett lögum um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og allar meiri háttar framkvæmdir hafi farið í gegnum slíkt mat.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×