Innlent

Össur: Seðlabanki og ESB ekki grundvöllur að stjórnarslitum

MYND/Anton

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra segir að Seðlabankinn eða Evrópusambandið séu ekki grundvöllur að stjórnarslitum og ekki séu brestir í stjórnarsamstarfinu.

Össur var spurður út í ólíkar skoðanir stjórnarflokkanna eftir ríkisstjórnarfund í morgun. Fram hefur komið í Fréttablaðinu að ráðherrar Samfylkingarinnar hafi látið bóka á ríkisstjórnarfundi að Davíð Oddsson starfi ekki í umboði flokksins sem seðlabankastjóri. Hafa ráðherrar kallað eftir brottvikningu hans en Geir H. Haarde forsætisráðherra hefur ekki ljáð máls á því. Þá er ágreiningur milli stjórnarflokkanna í Evrópumálum en Samfylkingin hefur lýst því yfir að leiðin út úr erfiðleikunum sé meðal annars að sækja um aðild að ESB.

Össur sagði í dag að ríkisstjórnin væri nú að takast á við afleiðingar bankahrunsins og það hefði ekki gefist tími til að ræða ESB-mál en að Seðlabankann hefði stundum borið á góma. Seðlabankinn og ESB væru ekki grundvöllur að stjórnarslitum. „Alla vega ekki núna, það er ekkert í þessari stöðu sem bendir til þess," sagði Össur.

Hann sagði enn fremur að flokkarnir hefðu mismunandi afstöðu í einstökum málum en það væri ekkert sem gerði það að verkum að það væru brestir í stjórnarsamstarfinu. Ríkisstjórnin væri að takast á við afleiðingar bankahrunsins og hún hefði gert það af mikilli einlægni og eftir bestu getu.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×