Innlent

500 þúsund króna fleyg stolið

Í liðinni viku bárust lögreglunni á Selfossi tilkynningar um fimm þjófnaðarbrot.

Tvær kærurnar beindust að sama manni sem hafði með viku millibili með sér vörur út úr verslun Bónus á Selfossi án þess að greiða fyrir. Í öðru tilvikinu varð starfsmaður var við manninn á leið út og náði niður bílnúmeri bíls sem þjófurinn var á. Í hinu tilvikinu sást í eftirlitsmyndavél þegar maðurinn fór út með vörur án þess að greiða fyrir. Málið er í rannsókn.

Brotfleygur hvarf úr kirkjugarðinum á Selfossi fyrir skömmu. Fleygurinn er í eigu verktaka og var notaður til að taka grafir á vetrum. Verðmæti fleygsins er um 500.000 krónur.

Brotist var inn í geymslu í Háengi 4 á Selfossi og þaðan stolið fjórum hjólbörðum af gerðinni Nord. 15" 100/85. Eitt innbrot var tilkynnt í sumarbústað við Sogsveg í Grímsnesi. Þaðan var stolið Hitachi 32" flatskjá og DVD spilara.

Á laugardag var lögregla kölluð í golfskálann á Selfossi en þaðan hafði verið stolið flatskjá, flakkara áfengi og sælgæti. Engin sjáanleg ummerki um innbrot var að sjá og því ekki vitað með hvaða hætti þjófurinn komst inn í húsið.

Lögreglan biður hvern þann sem veitt getur upplýsingar um þessi þjófnaðarmál að hafa samband við lögreglu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×