Innlent

Segir Gunnar Pál hafa saurgað nafn VR

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

„Nafnið VR stendur fyrir virðingu og réttlæti og ég get ekki annað sagt en Gunnar [Páll Pálsson, formaður VR] hafi saurgað það nafn og virðingin og réttlætið séu bara fyrir suma," segir Lúðvík Lúðvíksson, VR-félagi og mótmælandi.

„Við erum að mótmæla í hádeginu í dag og munum halda því áfram næstu hádegi. Við fórum á nokkra vinnustaði í gær og hljóðið í fólki er verulega slæmt. Laun hafa ekki hækkað og það er alveg klárt á hverjum það bitnar þegar harðnar á dalnum. Það bitnar á þeim sem lægst hafa launin," segir Lúðvík ómyrkur í máli.

Hann segist ekki gefa mikið fyrir yfirlýsingu Gunnars Páls í Fréttablaðinu og á Vísi í morgun en neðst í þessari frétt má sjá hlekk er vísar á hana.

„Ég vil kalla þessa yfirlýsingu kosningaherferð Gunnars Páls. Við erum hvergi bangin og ætlum að herða róðurinn á næstu dögum. Það er bara komið að því að fólkið í landinu sjái að til er réttlæti. Það kemur ekki fram í greininni [yfirlýsingu Gunnars Páls] að sjúkrasjóður VR hefur rýrnað verulega ásamt öðrum eignum félagsins og lífeyrissjóðsins," segir Lúðvík enn fremur og spyr hvers vegna Gunnar Páll hafi ekki gætt að sínum liðsmönnum og selt hlutina í Kaupþingi þegar tók að stefna í óefni.

„Svarið við því er einfalt. Hann hefði verið vanhæfur til þess lögum samkvæmt. Gunnar Páll iðrast einskis í þessari yfirlýsingu í Fréttablaðinu og á Vísi í morgun. Hann er með sömu stjörnurnar í augunum og hann var með þegar hann var að ganga frá sínum launasamningum," segir Lúðvík að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×