Innlent

Peningamálastefnan komin í þrot

Ólafur Ísleifsson lektor í hagfræði við Háskólann í Reykjavík sagði Ríkisstjórnina hafa tekið ákvörðun sína í algjörri nauðvörn og nú þyrfti að vinna á grundvelli þessarar ákvörðunar. Ólafur var gestur í Íslandi í dag fyrir stundu. Hann sagði jákvætt að stjórnvöld hefðu gefið það út að heimilin og fyrirtækin í landinu verði varin skilyrðislaust.

„Það er nauðsynlegt að fólkið hafi vinnu og nauðsynlegt að fólk geti búið áfram á sínum heimilum. Það verður að gera með því að veita fyrirtækjum lausu fé úr Seðlabankanum."

Ólafur sagði að nú væri ekki tími til þess að fella neina dóma um hvort grípa hefði átt inn í fyrr.

„Í því sambandi hefur verið talað um ófullnægjandi gjaldeyrisvarasjóð og samninga við erlenda banka sem hefði átt að gera þegar betur áraði. Aðal atriðið núna er hinsvegar að tryggja hjól átvinnulífsins. Fólk hefur staðið hér varnalaust gagnvart falli krónunnar og verðbólguhrinu. Þessu verður að taka á af myndarskap."

Aðspurður hvort lánstraust okkar íslendinga erlendis muni lifa þessar hremmingar af sagði Ólafur að aðgerðirnar sem farið var í með Glitni í síðustu viku hefðu stillt okkur upp við vegg.

„Það er nauðsynlegt að menn átti sig á því að sú stefna sem rekin hefur verið hér er algjörlega komin í þrot og við verðum að senda umheiminum skýr skilaboð um að hér verði algjör vatnaskil og unnið verði á grundvelli nýrrar stefnu. Þessi skilaboð verða að vera skýr svo við getum endurheimt það traust sem við getum ekki verið án."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×