Innlent

Man ekki til þess að Brown hafi lagt til að Íslendingar leituðu til IMF

Geir og Brown á umræddum fundi.
Geir og Brown á umræddum fundi.

Geir H. Haarde forsætisráðherra rekur ekki minni til að Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, hafi á fundi þeirra í apríl lagt til að Íslendingar leituðu þá ásjár Alþjóðagjaldeyrissjóðsins vegna erfiðleika fjármálakerfisins. Þetta kom fram í svari hans við fyrirspurn Jóns Magnússonar, þingflokksformanns Frjálslynda flokksins, á Alþingi í dag.

Jón vakti athygli á frétt í Morgunblaðinu þar sem vísað var til greinar á fréttavef breska blaðsins Daily Telegraph nýverið. Þar hefði komið fram að Geir H. Haarde hefði varað Gordon Brown við því á fundi þeirra í apríl að íslenska fjármálakerfið stæði frammi fyrir miklum erfiðleikum og að Gordon Brown hefði þá ráðlagt Geir að íslensk stjórnvöld leituðu til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Spurði Jón ráðherra hvort þetta væri rétt og sagði það skipta gríðarlegu máli ef svo væri.

Geir sagði að í frétt breska blaðsins gætti töluverðrar ónákvæmi. Send hefði verið út tilkynning um málið þar sem fram hefði komið að rætt hefði verið um alþjóðlegu efnahags- og fjármálakreppuna og áhrif hennar á íslenskt fjármálakerfi og þau íslensku fyrirtæki sem voru með starfsstöðvar í Bretlandi. Benti Geir á að þar störfuðu 100 þúsund manns. Málefni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefði borið á góma en hann ræki ekki minni til að Gordon Brown hefði lagt til að Íslendingar leituðu þangað á því stigi.

Jón sagði út frá svörum forsætisráðherra að strax í apríl hefði mátt vera ljóst að það væru alvarlegar blikur á lofti í efnahagsmálum íslensku þjóðarinnar og það gæti dregið til tíðinda í íslenska fjármálakerfinu. Þess vegna veltu menn fyrir sér hvers vegna ekki hefði verið gripið til aðgerða. Spurði Jón hvort viðvörunarbjöllur hefðu ekki hringt strax í apríl.

Geir svaraði til að viðvörunarbjöllur hefðu byrjað að hringja í alþjóðahagkerfinu í ágúst í fyrra. Erfiðileikarnir hefðu magnast upp í fellibyl sem ekki sæi fyrir endann á. Stjórnvöld víða um heim hefðu sett stórkostlega fjármuni í sína banka til að bjarga þeim en enginn hefði séð fyrir hrun Lehman Brothers og fleiri stórra banka sem hefðu haft alvarlegar afleðingar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×