Innlent

Samið um markalínur vegna olíumála

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra og Jónas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs, undirrituðu í dag samning milli landanna um kolvetnisauðlindir, eins og olíu og gas, sem kunna að liggja yfir markalínur.

Samkvæmt samningnum skal í þeim tilvikum þegar kolvetnisauðlind nær yfir á landgrunn beggja landanna gera sérstakan samning um skiptingu auðlindarinnar milli landanna og um nýtingu hennar. Enn fremur undirrituðu ráðherrarnir samkomulag þar sem er nánar kveðið á um 25 prósenta þátttökurétt Íslands og Noregs í olíustarfsemi á hluta hvors annars af landgrunninu á hinu sameiginlega nýtingarsvæði milli Íslands og Jan Mayen samkvæmt samningi landanna frá 1981. Samningarnir eru forsenda þess að unnt verði að veita leyfi til leitar og vinnslu á kolvetnisauðlindum á Drekasvæðinu en stefnt er að því að bjóða út slík leyfi á næsta ári.

Þá kemur enn fremur fram í tilkynningu utanríkisráðuneytisins að ráðherrarnir hafi rætt um stöðu Íslands og stuðning Noregs í formi lánafyrirgreiðslu og sérfræðiaðstoðar, þ.á m. vegna fyrirhugaðrar rannsóknar á atvikum sem leiddu til bankakreppunnar á Íslandi. Megináhersla beggja ráðherra á fundinum var að brýnt væri að leiða til farsælla lykta samkomulag við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og samfara því lán frá öðrum Norðurlöndum.

Ráðherrarnir ræddu einnig um samstarf Íslands og Noregs innan NATO, sameiginlega öryggishagsmuni og stöðu Íslands og Noregs gagnvart EES og Evrópusambandinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×