Innlent

Björn væntir þess að samfylkingarmenn átti sig

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra.
Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra segist vænta þess að þingmenn Samfylkingarinnar átti sig á því að tillögur hans um breytta skipan hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum séu byggðar á skýrum rökum. Fjölmiðlar hafa flutt af því fregnir að þingmenn Samfylkingarinnar séu mótmæltir tillögum Björns. Hann dregur í efa að þingflokkurinn sé samstiga í málinu og bendir á að samfylkingarmenn í ríkistjórn hafi samþykkt framlagningu frumvarps fjármálaráðherra á tollalögum. Björn segir einnig að tillögur Jóhanns R. Benediktssonar um lausn á þeim vanda sem embættið er í hefðu leitt til uppsagna og uppbrots embættisins.

„Breytingarnar á embættinu eiga rót sína í fjárhagsvanda þess," segir Björn í skriflegu svari við fyrirspurn Vísis. „Hann hefur verið langvinnur og nú í ár stefnir að óbreyttu í meira en 200 m. kr. halla. Þetta er með öllu óviðunandi. Tillögur lögreglustjóra um lausn vandans gerðu ráð fyrir uppsögnum starfsfólks og í raun uppbroti embættisins. Ég gat ekki fallist á þær og valdi aðra leið."

Björn segir ennfremur að tillaga sín snúist um að laga starfsemi embættisins að skipulagi stjórnarráðsins, „þannig að hvert ráðuneyti beri ábyrgð á sínum efnisþætti starfseminnar og þar með þeim hluta fjármálastjórnar, sem undir hann fellur."

Björn væntir þess að Samfylkingarmenn átti sig í málinu. „Ég hef í sjálfu sér ekki heyrt neinar tillögur um annað frá Samfylkingunni eða einstökum þingmönnum hennar heldur hitt, að þeir vilji meiri tíma og betri rök. Þetta eru eðlileg viðbrögð stjórnmálamanna við máli, sem þeir hafa ekki kynnt sér til hlítar.“

„Ég vænti þess, að þingmenn Samfylkingarinnar átti sig á því, eftir að hafa kynnt sér málið, að tillögur mínar byggja á skýrum málefnalegum rökum og eru til þess fallnar að losa embættið út úr hinum stöðugu fjárhagslegu erfiðleikum, sem valda reglulega uppnámi innan þess," segir Björn að lokum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.