Innlent

Ólympíueldurinn á Keflavíkurflugvelli

Ólympíueldurinn hafði viðkomu á Keflavíkurflugvelli seint í gærkvöldi og var þess vendilega gætt að engin nálgaðist Airbus-þotuna sem flutti hann.

Greint er frá þessu á Víkurfréttum og þar sagt að til dæmis mátti myndatökumaður Víkurfrétta ekki nálgast vélina. Hún var að koma frá París og hélt héðan áleiðis til San Fransisco.

Þar segir einnig að Ólympíueldurinn hafi komið til Keflavíkurflugvallar frá París og héðan var ferðinni heitið í beinu flugi til San Francisco. Viðdvöl vélarinnar í Keflavík var ögn lengri en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir. Þannig átti flugvélin eingöngu að hafa hér klukkustundar viðdvöl, en vélin fór ekki aftur í loftið fyrr en tæpum tveimur og hálfum tíma síðar.

Dagskrá tengd ólympíueldinum fór öll úr skorðum í París í gær og menn bíða spenntir eftir að sjá hverjar móttökurnar verða í Bandaríkjunum.

Þrýstingur á kínversk stjórnvöld vegna mannréttindamála og framgöngu þeirra í Tíbet hefur aukist mjög að undanförnu og sömuleiðis þrýstingur á vestræna stjórnmálamenn að sniðganga opnunarhátíð Ólympíuleikanna í Peking í ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×