Snekkja Pálma Haraldssonar, áður í eigu Saddams Husseins, lagðist fyrir skömmu að bryggju við hlið Viðeyjarferjunnar í Sundahöfn.
Snekkjunni er ætlað að hýsa Al Gore á meðan hann dvelur hér á landi í næstu viku, og munu bandarískir öryggisverðir sem gæta varaforsetans fyrrverandi því taka við henni upp úr tvö í dag og fara yfir öryggismál. Þangað til gefst almenningi kostur á skoða gripinn.
Eins og fram kom í frétt Vísis fyrr í morgun finnst hernaðarandstæðingum vera snekkjunnar, og Al Gore, á landinu ósmekkleg, og hyggjast leggja fram lögtakskröfu á henni. Þeir munu einnig mótmæla komunni á hafnarbakkanum upp úr hádegi.
Pálmi var sjálfur á hafnarbakkanum þar sem Vísir ræddi við hann. Hann sagði snekkjuna jafnvel stærri en hann minnti, og skal engan undra, en hún er heilum 20 metrum lengri en varðskipin.
Það var tignarleg sjón að fylgjast með snekkjunni á leið til hafnar. „Ég er ánægður með kaupin, en sé fram á að þurfa að lappa aðeins upp á hana," sagði Pálmi, og bætti við að hann hafi ekki alveg sama smekk fyrir innanhússhönnun og einræðisherrann.