Enski boltinn

Grétar Rafn: Ég var heppinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tæklingin umrædda sem Abou Diaby fékk rautt fyrir.
Tæklingin umrædda sem Abou Diaby fékk rautt fyrir. Nordic Photos / Getty Images

Grétar Rafn Steinsson segir í samtali við enska fjölmiðla að hann hafi verið heppinn að sleppa við alvarleg meiðsli eftir að leikmaður Arsenal, Abou Diaby, tæklaði hann í leik Bolton og Arsenal um helgina.

Diaby fékk að líta rauða spjaldið fyrir tæklinguna en Grétar kláraði leikinn. Grétar vildi þó ekki tjá sig um hvort að það hafi verið rétt ákvörðun hjá dómaranum.

„Þetta var brot en það er undir dómaranum komið að gefa spjöldin. Ef hann ákveður að gefa rautt þá stendur það,“ sagði Grétar.

Gary Megson, stjóri Bolton, varð vitni að annarri svipaðri tæklingu þegar að Jason Koumas, leikmaður Wigan, fór í Gary Cahill.

„Þetta var rétt ákvörðun hjá dómaranum,“ sagði Megson um rauða spjaldið sem Diaby fékk. „Þessar tæklingar voru kannski ásættanlegar fyrir nokkrum árum en ekki í dag. Það var ekki illur ásetningur hjá honum en hann fór með takkana á undan og var aðeins of seinn.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×